Birtingarmynd eineltis

Ritstjórn Fréttir

Á síðustu misserum hefur umræðan um einelti aukist. Einelti hefur verið skilgreint sem endurtekið áreiti sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig. Einelti getur bæði verið líkamlegt, félagslegt og andlegt. Starfsfólk skólanna hefur vaxandi áhyggjur af nýrri birtingarmynd eineltis, þ.e. sms-skilaboðum, spjallrásum og vefsíðum á Netinu. Nokkuð hefur borið á því að nemendur noti vefsíður (svo nefndar bloggsíður) og spjallrásir (MSN) til þess að niðurlægja skólafélaga sína. Þegar nemendur verða uppvísir af slíkum brotum er umsvifalaust haft samband við forráðamenn viðkomandi nemanda. Vegna alvarleika málsins og rétt er að benda á að slíkt athæfi getur verið saknæmt. Ennfremur hefur skólinn látið loka vefsíðum nemenda sem innihalda rógburð og niðurlægingar.
Með samstilltu átaki heimila og skólans teljum við að koma megi í veg fyrir brot af þessu tagi. Það er einlæg ósk okkar að foreldrar skoði og fylgist með því sem börn þeirra eru að fást við í tölvunum og brýni fyrir þeim þá ábyrgð sem felst í því að nýta sér tæknina hvort sem það er á bloggsíðum eða spjallrásum.