Hjartastuðtæki afhent

Ritstjórn Fréttir

Fyrir skömmu var skólanum afhend vegleg gjöf frá Rauða kross deild Borgarbyggðar. Gjöfin er hjartastuðtæki sem afskaplega einfalt er í notkun og ef um hjartastopp er að ræða getur nánast hver sem er notað tækið og komið strax til hjálpar.
Það var Kristín Einarsdóttir, fulltrúi Rauða krossins hér í Borgarfirði, sem afhenti Kristjáni Gíslasyni skólastjóra tækið. Starfsmenn Grunnskólans í Borgarnesi sem og starfsmenn íþróttamiðstöðvarinnar fengu svo námskeið í notkun tækisins og fræðslu um hvaða sjúkdómar eða áföll kynni að vera hægt að stöðva eða koma í veg fyrir frekari skaða með tækinu.
Þetta tæki styttir biðtíma sjúklings sem hefur fengið hjartastopp mikið og eykur því lífslíkur til muna. Þrátt fyrir veglega gjöf og faglegt og gott námskeið er þetta ein af þeim gjöfum sem við vonumst til að þurfa aldrei að nota!
Sambærilegt tæki er í íþróttahúsinu og verður tækið í skólanum sett upp á áberandi stað í þar til gerðum kassa sem auðvelt er að opna og taka tækið ef upp kemur þörf fyrir það. Tækið veitir mikið öryggi og leiðbeinir sjálft með rödd á íslensku hvað skal gera og hvernig skuli bera sig að. Það eina sem þarf að gera er að kveikja á því og staðsetja púða með geli, nokkurn veginn Z-laga á réttan stað sem er mjög einfalt. Þetta veitir vissulega mikið öryggi hér innanhúss ef eitthvað kæmi uppá á skólalóðinni eða inni í skólanum bæði fyrir nemendur en ekki síst starfsfólk sem eru vissulega í meiri áhættuhópi en nemendur. Svo nýtist þetta að sjálfsögðu öllum gestum skólans en skólinn er nýttur undir ýmsa félagsstarfsemi.
Það þarf vart að taka það fram hve þarft svona tæki er á öllum vinnustöðum, stofnunum sem fyrirtækjum því þetta hefur sannað sig árum saman og hefur bjargað fjölda mannslífa.