Þemadagar – vinátta

Ritstjórn Fréttir

Vikuna 27. – 31. mars voru þemadagar á unglingastigi. Áherslan var á vináttu og forvarnir. Að þessu sinni voru 8. og 9. bekkur í aðalhlutverki en 10. bekkur kom inn í ferð sem farin var á leikritið ,, Hvað Ef,” sem Hafnarfjarðarleikhúsið hefur verið að sýna í vetur í samvinnu við SÁÁ fyrir krakka í efstu bekkjum grunnskólans.
Leikritinu var svo fylgt eftir með heimsókn leikstjórans, Gunnars og Hjalta Björnssonar, frá SÁÁ. Hittu þeir hvern árgang á unglingastigi fyrir sig, ræddu um leikritið, staðreyndir tengdar vímuefnanotkun og þeirri dauðans alvöru sem því fylgir. Þetta var samstarfsverkefni Íþrótta – og æskulýðsráðs og skólans. Það var SPM , KB banki, Borgarfjarðardeild Rauða krossins og Borgarbyggð sem bauð unglingum á leikritið.
Tvisvar í vikunni var 8. og 9. bekk skipt í hópa til að vinna verkefni með vináttu að leiðarljósi. Hið fyrra var ratleikur sem íþróttakennararnir skipulögðu af alkunnri snilld og í síðara skiptið voru settar upp smiðjur sem nemendur völdu sér verkefni til að vinna að. Miðaði verkið að því að gera unglingadeildina aðlaðandi með listaverkum af ýmsum toga; málverk, saumamyndir, prjónuð verk og margt fleira. Rammar voru svo smíðaðir í smíðastofu utan um myndirnar. ,,Sing star” var í gangi og boðið upp á ávexti og popp. Í þessum þætti voru það list- og verkgreinakennarar sem sáu um skipulag sem tókst með eindæmum vel. Aðrir kennarar tóku þátt í verkefninu með því að aðstoða í smiðjunum og með samhentu átaki tókst að skapa skemmtilega stemmingu við vinnuna.
Á heimasíðu skólans er fjöldi mynda frá þessu verkefni. http://www.grunnborg.is/default.asp?sid_id=24584&tre_rod=002|&tId=6