Senn líður að jólum og styttist í Útvarp Óðal fm 101,3 sem er útvarp á vegum nemendafélagsins. Nemendur skólans eru önnum kafnir við þáttagerð og upptökur.
Nemendafélag Grunnskólans í Borgarnesi hefur í fjölda ára starfrækt jólaútvarp í fjóra daga um miðjan desember. Núna er það 12. – 15. desember. Nemendur í 1. – 7. bekk gera bekkjarþætti með sínum umsjónarkennara og eru þeir teknir upp fyrirfram. Upptökur standa yfir í þessari viku. Nemendur 8. – 10. bekkjar semja þætti, einn til þrír nemendur með hvern þátt. Þessa þætti vinna þau að mestu í skólanum og eru þeir svo sendir út beint í flestum tilfellum. Allir nemendur unglingadeildarinnar gera þátt og langflestir fara með þá í útsendingu en það er ekki skylda og eru þeir sem ekki fara í útsendingu þá eingöngu íslenskuverkefni í skólanum.