Undanfarin ár hefur 9. bekkur skólans farið í sjóferð með skólaskipinu Dröfn. Þetta ár er engin undantekning því næstkomandi fimmtudag, 15. febrúar, fer 9. bekkur þessa árs á sjó.
Farið verður í þremur hópum vegna takmarkana á fjölda í hverja ferð.
Tveir fylgdarmenn verða frá skóla í hverja ferð.
Fyrsti hópur fer frá Borgarnesi kl. 8:00, annar hópur kl. 10:15 og síðasti hópurinn fer kl. 13:15. Ekki er skóli að öðru leyti þennan dag.
Nemendur hafa fengið upplýsingar um í hvaða hópi þeir eru og eru beðnir að mæta á réttum tíma í rútuna, sem fer frá skólanum.
Hér fyrir neðan eru upplýsingar um ferðina:
Upplýsingar fyrir nemendur og kennara um kennsluferðir með skólaskipinu
- Skipstjóri tekur á móti nemendum og kennara / kennurum.
- Skipstjóri fer yfir björgunarbúnað skipsins. Gúmmíbáta, bjargbelti o.fl.
- Líffræðingur fer yfir helstu einkenni íslenska hafsvæðisins, skýrir hvað á að gera í ferðinni, kynnir Hafró, sýnir myndband o.fl.
- Líffræðingur útskýrir fyrir nemendum hvernig sýnatöku til sjós er háttað og sýnir svifþörungaháf, sem hent er út í sjó ef veður og tími leyfa.
- Bátsmaður fer yfir helstu veiðarfæri og sýnir líkön af botntrolli og hringnót.
- Tækjakostur í brú sýndur og farið yfir það hvernig tækin eru notuð.
- Tekin upp krabbagildra og farið yfir helstu einkenni krabba.
- Fiskitrolli kastað, farið yfir nokkra hluti þess og sýnt hvernig það virkar.
- Nemendur fylgjast með blóðgun og aðgerð fisks, fræðast um helstu innri- og ytri líffæri og mismun tegundanna. Þeir fá svo svuntur og hanska og taka þátt í aðgerðinni með aðstoð áhafnarinnar.
- Að síðustu er haldið til hafnar og hópurinn kvaddur.
Þessi dagskrá getur verið breytileg á milli ferða. Þar ræður veður miklu og lengd ferðanna ræðst af því hvernig það er.
Afar nauðsynlegt er að klæða sig vel, í mjög hlý föt. Ekki gleyma húfu og vettlingum. Margir unglingar eiga “Kraftgalla” sem hafa reynst vel og gamla góða lopapeysan gerir alltaf kraftaverk gegn kulda svo og flísfatnaður.
Verið einnig vel búin til fótanna.
Bestu kveðjur með ósk um ánægjulega ferð.