Göngum í skólann í október

Ritstjórn Fréttir

Ísland tekur nú í fyrsta sinn þátt í alþjóðlega verkefninu „Göngum í skólann“ (www.iwalktoschool.org).
Á síðasta ári tóku milljónir barna þátt í Göngum í skólann-verkefninu í fjörutíu löndum víðs vegar um heim.
Ísland tekur nú í fyrsta skipti þátt en bakhjarlar Göngum í skólann-verkefnisins eru Lýðheilsustöð, Umferðarstofa (ásamt móðurskólum í umferðarfræðslu), Ríkislögreglustjórinn, Menntamálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Heimili og skóli.
Verkefninu er ætlað að hvetja nemendur, foreldra og starfsmenn skóla til að ganga, hjóla, fara á línuskautum eða á annan virkan hátt til og frá skóla. Íslensk börn og fullorðnir sem taka þátt í verkefninu slást þar með í för með mörgum öðrum þjóðum heims, svo sem Áströlum, Brasilíumönnum, Kýpurbúum, Bretum, Írum, Nýsjálendingu, Svisslendingum og Bandaríkjamönnum.
Októbermánuður er ,,göngum í skólann“ mánuður!
Í októbermánuði, ár hvert, eru börn hvött sérstaklega til að nýta sér virkan samgöngumáta, svo sem göngu, til að ferðast til og frá skóla. Markmið verkefnisins eru meðal annars að:
Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.
Heilbrigður lífsstíll fyrir alla fjölskylduna: Hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.
Minni umferð við skóla: Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Betra og hreinna loft og öruggari og friðsælli götur og hverfi.
Vitundarvakning um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Samfélagsvitund eykst.
Kennir reglur um öryggi á göngu og hjóli:
Skólar á Íslandi sem taka þátt
Allir grunnskólar munu fá send veggspjald Göngum í skólann en þátttaka í verkefninu felst í að að áhugasamir skólar:
Skrái sig til þátttöku með því að senda póst á hedinn@lydheilsustod.is
Í póstinum þarf að koma fram, auk nafn skólans, nafn tengiliðs við verkefnið ásamt stuttri lýsingu á hvað viðkomandi skóli ætlar að gera í tilefni af Göngum í skólann mánuðinum.
Það getur verið allt frá því að halda sérstaklega upp á Göngum í skólann daginn 3. október, til þess að leggja áherslu á þetta þema í heila viku eða jafnvel allan mánuðinn.
Nöfn skólanna sem taka þátt mun koma fram á heimasíðunni,ásamt áðurnefndri lýsingu. Einnig er mögulegt að setja tengingu við heimasíðu viðkomandi skóla á heimasíðu verkefnisins.
Tenglar: