Borgarfjarðarbrúin – samfella milli skólastiga

Ritstjórn Fréttir

,,Borgarfjarðarbrúin“ er verkefni sem lýtur að endurskoðun skólanámskráa grunnskólanna í Borgarbyggð og þróun kennsluhátta með áherslur á einstakinginn
(einstaklingsmiðað nám), þar sem tekið er mið af þörfum, áhuga og getu hvers nemenda.
Verkefnið er unnið í samvinnu grunnskólanna í Borgarbyggð, hins nýstofnaða Menntaskóla Borgarfjarðar og Menntamálaráðuneytis. Unnin hefur verið framkvæmdaráætlun fyrir verkefnið sem taka mun þrjú skólaár og mun afraksturinn birtast eftir því sem verkinu vindur fram. Í haust voru því ekki gefnar út hefðbundnar bekkjarnámskrár í skólanum en námsáætlanir munu birtast á Mentor.is.
Verið er að vinna að heimasíðu fyrir verkefnið og mun hún von bráðar vera tekin í gagnið. Svokallaður ,,bakhópur“ stýrir verkinu og sitja í honum m.a. tveir fulltrúar frá hverjum grunnskóla. Fyrir hönd Grunnskólans í Borgarnesi sitja í nefndinni Hilmar Már Arason, aðstoðarskólastjóri og Ragnhildur Kristín Einarsdóttir, deildarstjóri.
Verkefninu var hrundið af stað í lok síðasta skólaárs með kynningarfundi starfsfólks skólanna og annarra sem koma að því og í upphafi þessa skólaárs hittust sömu aðilar aftur. 1. október næstkomandi hittast þessir aðilar enn á ný á vinnufundi. Sérlegur ráðgjafi við verkefnið er Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Kennaraháskóla Íslands.