![]() |
Nemendur að leggja af stað í Brákarhlaupið |
Nemendur byrjuðu á því að ganga eða skokka upp í Sandvík. Hituðu þar upp og hlupu svo sem leið lá niður Borgarbrautina að Brákarsundi og köstuðu nokkrum steinum í sundið til minningar um Brák. Það er stefna okkar að gera þetta að árlegum atburði héðan í frá.
Hér að neðan er svo hægt að lesa tilvitunina í Egilssögu þegar upprunalega hlaupið var háð!
Egilssaga
40. kafli
Þá er Egill var tólf vetra gamall, var hann svo mikill vexti, að fáir voru menn svo stórir og að afli búnir, að Egill ynni þá eigi flesta menn í leikum; þann vetur, er honum var hinn tólfti, var hann mjög að leikum. Þórður Granason var þá á tvítugs aldri; hann var sterkur að afli; það var oft, er á leið veturinn, að þeim Agli og Þórði tveimur var skipt í móti Skalla-Grími.
Það var eitt sinn um veturinn, er á leið, að knattleikur var að Borg suður í Sandvík; þá voru þeir Þórður í móti Skalla-Grími í leiknum, og mæddist hann fyrir þeim, og gekk þeim léttara. En um kveldið eftir sólarfall, þá tók þeim Agli verr að ganga; gerðist Grímur þá svo sterkur, að hann greip Þórð upp og keyrði niður svo hart, að hann lamdist allur, og fékk hann þegar bana; síðan greip hann til Egils.
Þorgerður brák hét ambátt Skalla-Gríms; hún hafði fóstrað Egil í barnæsku; hún var mikil fyrir sér, sterk sem karlar og fjölkunnug mjög.
Brák mælti: „Hamast þú nú, Skalla-Grímur, að syni þínum.“
Skalla-Grímur lét þá lausan Egil, en þreif til hennar. Hún brást við og rann undan, en Skalla-Grímur eftir; fóru þau svo í utanvert Digranes; þá hljóp hún út af bjarginu á sund. Skalla-Grímur kastaði eftir henni steini miklum og setti milli herða henni, og kom hvortki upp síðan. Þar er nú kallað Brákarsund.