Bókasafnið

Ritstjórn Fréttir

Það er ávallt mikið að gerast á bókasafninu. Tveir nemendur þeir Hörður Óli og John Paul í 5. bekk AE spjölluðu við Jóhönnu á bókasafninu og tóku nokkrar myndir:
Hvað fer fram á bókasafninu?
Á bókasafnið koma bæði nemendur og starfsfólk skólans. Krakkarnir koma fyrst og fremst til að ná sér í bækur sem þau lesa bæði í skólanum og heima. Safnið er líka notað fyrir sérkennslu sem og aðra kennslu. Nemendur koma líka í leit að ýmiskonar heimildum. Á safninu eru skoðuð ýmis fræðslumyndbönd og margt fleira. Við lánum einnig fræðslumyndbönd til annarra skóla á vesturlandi því safnið hýsir myndbandasafnið sem skólaskrifstofa vesturlands átti.
Hvað er um að vera á safninu þessa viku?
Þessa viku nota ég fyrir 1.-3. bekk. Hverjum bekk er boðið á bókasafnið klukkutíma í einu. Ég kynni fyrir þeim jólabækurnar, les uppúr nokkrum þeirra fyrir þau og svo endum við á einhverju skemmtilegu. Boðið er uppá piparkökur til að gera þessar samverustundir svolítið jólalegar. Svo komu krakkar úr leikskólanum í dag og fengu að kíkja á bækurnar.
Eru margir sem taka bækur?
Aðallega 1.-7. bekkur, eldri krakkarnir mættu vera duglegri við það.
Hvernig bækur vilja krakkarnir helst taka?
Mörg þeirra vilja helst þunnar og fljótlesnar bækur, en svo eru aðrir sem taka allt mögulegt.
Hvað er meira hér inni á bókasafninu?
Hér erum við með púsluspil, yatzy og allskonar önnur spil. Svo er hér afmælisdagaspjald, þar set ég nöfn þeirra sem eiga afmæli. Hér eru alls konar DVD diskar með fræðsluefni og 2 tölvur til afnota fyrir nemendur með leyfi mínu og kennarans.
Eru einhver tímarit keypt á safnið?
Já, Bílar og Sport, Sagan öll, Lifandi vísindi, Q (poppblað) og Golfblaðið.
Lestu mikið? Já, ég les mjög mikið. Til dæmis tek ég oft bækur með mér heim. Ég les þær til að vita hvernig þær eru, þannig að ég geti mælt með þeim við krakkana.
Finnst þér gaman að vinna á bókasafninu? Já mjög gaman, enda er hér alltaf líf og fjör. Ég vil hvetja krakka til að lesa meira og taka fjölbreyttari bækur. Bækur eru uppfullar af fróðleik. Þær geta verið sorglegar, skemmtilegar, spennandi, fyndnar og furðulegar. Þær eru stór hluti af okkar menningu. Við eigum að halda bókum að krökkum og hvetja þau til að lesa. Það er nauðsynlegt að brýna fyrir þeim að það sé meira hægt að gera en að horfa á videó og sjónvarp. Það þarf líka að kenna mörgum þeirra að umgangast bækurnar.