Eins og áður hefur verið greint frá fóru nemendur 8.bekkjar ásamt bekkjarkennurum og stuðningsfulltrúa í tveggja daga skíðaferðalag til Akureyrar14. og 15. febrúar s.l.
Lagt var af stað frá skólanum fimmtudagsmorguninn 14.febrúar og ekið sem leið lá til Akureyrar. Að sjálfsögðu var stoppað í sjoppu á leiðinni eins og tíðkast á langferðum og varð Blönduós fyrir valinu. Þegar til Akureyrar var komið byrjuðum við á því að koma okkur fyrir á herbergjunum á Gistiheimilinu Stórholti en síðan var farið beint á skíði í Hlíðarfjalli. Þar var yndislegt veður 10 stiga hiti og logn.
Eftir að skíðin eða brettin höfðu verið sótt á skíðaleigunafóru allir í grunnkennslu á skíðum/brettum. Þrátt fyrir að nær enginn hefði nokkra reynslu af því að standa á skíðum /brettum leið ekki á löngu áður en nokkrir voru farnir að komast niður brekkurnar án stóráfalla og gátu farið í lyftur og frjálst um fjallið.
Við dvöldum svo í Hlíðarfjalli til kl. 17. Þá fórum við á gistiheimilið og svo út að borða á Greifanum þar sem okkur var boðið uppá pitsuhlaðborð. Eftir matinn var frjáls tími sem sumir nýttu til að skella sér í sund meðan aðrir fóru í bíó eða fengu sér gönguferð um bæinn. Allir voru svo komnir inná gistiheimilið klukkan tíu um kvöldið en ekki fóru nú allir snemma að sofa.
Eftir góðan morgunverð daginn eftir var aftur haldið til fjalla. Veðrið var ágætt framan af degi en um hádegið hvessti mikið og sumum lyftunum var þá lokað. Þar sem erfitt reyndist að stunda skíðaíþróttina við þessar aðstæður héldum við af stað heim nokkru fyrr en áætlað hafði verið. Á heimleiðinni var svo stoppað í tveim sjoppum, í Varmahlíð og Staðarskála. Við vorum svo komin aftur heim í Borgarnes um klukkan átta á föstudagskvöldinu. Óhætt er að segja aðferðin hafi tekist í alla staði vel og allir snéru heim glaðir og ánægðir.