Sigling og þjóðmenning

Ritstjórn Fréttir

Nemendur í 6. bekk fóru til Reykjavíkur 27. maí. Hópnum var skipt í tvo hópa eftir kynjum. Strákarnir byrjuðu að fara í siglingu á meðan stelpurnar fóru í Þjóðmenningarhúsið. Siglt var frá Miðbakkanum á bátnum Skúlaskeiði og út á Faxaflóa. Markmiðið með þessu verkefni er að gefa nemendum kost á að kynnast umhverfi Reykjavíkurhafnar og lífríki sjávar.
Tekin voru sýni úr botninum með litlum netapoka. Nemendur fengu fróðleik um þau sjávardýr sem komu upp. Þar má nefna ígulker, krossfiska, krabba og sæbjúga. Siglt var að Akurey og fengu nemendur fróðleik um Lundann en þar er einmitt Lundavarp. Rætt var um ýmsar aðrar fuglategundir sem sáust á flugi. Síðan var haldið í land og farið á Bæjarins bestu en þar hittust hóparnir og fengu sér pylsu og gos. Stelpurnar fóru svo í siglingu en strákarnir í Þjóðmenningarhúsið. Í Þjóðmenningarhúsinu voru skoðuð ýmis handrit og fengu nemendur fróðleik um handritin rúnaletur ofl. Að lokum fengu þau að skrifa með fjöður á litla miða. Nemendur höfðu gagn og gaman af ferðinni og skemmtu sér vel.