Alþjóðlegi mjólkurdagurinn

Ritstjórn Fréttir

Þann 24. september næstkomandi verður alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn haldinn hátíðlegur í níunda sinn. Í tilefni dagsins býður Mjólkursamsalan öllum grunnskólabörnum landsins upp á mjólk í skólunum og má reikna með að þar verði drukknir 12.000 lítrar af mjólk.
Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim en það er Matvælastofnun Sameinuðu þjóðana sem hvetur til að haldið sé upp á daginn. Á Íslandi er haldið upp á hann undir kjörorðunum „Holl mjólk og heilbrigðir krakkar“.
Með deginum vill íslenskur mjólkuriðnaður vekja athygli barna, foreldra og starfsfólks skólanna á mikilvægi mjólkur í fæði barnanna. Mjólkurneysla barna og unglinga hefur dregist verulega saman víða um heim á síðustu árum, þar á meðal hér á landi. Hart er sótt að mjólkinni og mikið drukkið af alls kyns söfum og gosdrykkjum.
Mjólk er mjög próteinrík og auk þess mikilvæg uppspretta 11 lífsnauðsynlegra vítamína og steinefna í fæðunni. Sérstaða mjólkur felst þó fyrst og fremst í því hve góður kalkgjafi hún er, en kalk er mjög mikilvægt fyrir byggingu beina. Vart er hægt að hugsa sér betri og næringarríkari drykk en mjólk til að gefa börnum sínum og unglingum og full ástæða til að hvetja þau til að auka mjólkurneyslu sína.
Samtímis því að skólamjólkurdagurinn er haldinn hátíðlegur er árlegri teiknisamkeppni hleypt af stokkunum. Öllum nemendum 4. bekkjar er boðið að taka þátt í samkeppninni. Myndefnið er algjörlega frjálst en æskilegt er að myndefnið tengist hollustu mjólkurinnar fyrir ungt fólk.