Undirbúningur fyrir afmælishátíð

Ritstjórn Fréttir

Í haust eru 100 ár liðin frá því að skólastarf hófst í Borgarnesi og þeirra tímamóta ætlum við að minnast með veglegri afmælishátíð. Vikuna 29. sept. til 3. okt. verður þemavika í skólanum þar sem reynt verður að fanga tíðaranda síðustu 100 ára með áherslu á Borgarnes en jafnframt er helstu atburðum á landsvísu (og jafnvel á heimsvísu) gefinn gaumur. Þessa viku verða stundatöflur stokkaðar upp, hefðbundin stundatafla verður lögð til hliðar og allur dagurinn fer í vinnu við afmælisundirbúninginn. Þó mæta nemendur í íþróttir og sund og list.- og verkgreinar í 7. – 10. bekk. Foreldrar eru sérstaklega boðnir velkomnir í heimsókn þessa viku. Við ljúkumvinnunni með sýningum í skólanum og í Menningarsal Borgarbyggðar í Menntaskóla Borgarfjarðar, föstudaginn 3. október. Opið hús verður frá 12:30 til 18:00 þar sem afrakstur vikunnar verður sýndur og boðið verður upp á veitingar í skólanum. Tvennar sýningar verða í Menningarsal Borgarbyggðar í Menntaskóla Borgarfjarðar, kl 17:00 og 19:00.
Nú leitum við til foreldra nemenda, íbúa Borgarbyggðar og fyrrverandi nemenda skólans með gögn sem geta nýst okkur. Við óskum eftir munum sem tengjast skólagöngu fólks (s.s. námsbókum, ljósmyndum, vinnubókum og öðrum námsgögnum) jafnframt munum sem tengjast daglegu lífi og gefa mynd af tíðaranda hvers tímabils (s.s. föt, leikföng, bækur, dagblöð, tónlist, ofl.).
Hver árgangur hefur sinn áratug til að vinna með, þ.e.
Tímabil Árg. Umsjónarkennarar
1908 (-1917) – 10. bekkur – Inga Margrét Skúladóttir og Heiðrún Hafliðadóttir
1918 (-1927) – 9. bekkur – Katrín Magnúsdóttir
1928 (-1937) – 8. bekkur – Birna Hlín Guðjónsdóttir
1938 (-1947) – 7. bekkur – Guðrún Rebekka Kristjánsdóttir og Sigurður Hreiðarr Björgvinsson
1948 (-1957) – 6. bekkur – Sigurþór Hjalti Gústafssonog Helga Þorsteinsdóttir
1958 (-1967) – 5. bekkur – Björk Jóhannsdóttir og Jónína Jóhannsdóttir
1968 (-1977) – 4. bekkur – Margrét Jóhannsdóttir og Elísa Harpa Grytvik
1978 (-1987) – 3. bekkur – Sæbjörg Kristmansdóttir og Rósa Hlín Sigfúsdóttir
1988 (-1997) – 2. bekkur – Arna Einarsdóttir og Hólmfríður Ólafsdóttir
1998 (-2008) – 1. bekkur – Sólrún Tryggvadóttir og Guðmunda Ólöf Jónasdóttir
Þeir sem eiga muni og telja þá geta nýst okkur eru beðnir um að merkja þá vel og koma þeim til viðkomandi umsjónarkennara. Verðmætar ljósmyndir getum við skannað og skilað fljótt aftur.