Forvarnardagar

Ritstjórn Fréttir

Dagarnir 5. og 6. nóvember voru helgaðir forvörnum í eldri deild skólans og var verkefnið unnið í samvinnu við félagsmiðstöðina Óðal. Fengnir voru fyrirlesarnir Beggi og Pagas og nefndist dagskrá þeirra ,, Listin að lifa.“ Þeir fjölluðu m.a. um fordóma, samkynhneigð og það hvað það er mikilvægt að vera jákvæður og vera góð hvert við annað.(sjá meira)
Alda Baldursdóttir, lögreglumaður kom í heimsókn til 7. bekkjar og fjallaði meðal annars um mikilvægi þess að geta sér góðs orðspors, þjófnaði og fíkniefni. Íris skólahjúkrunarfræðingur fjallaði um heilbrigðan lífstíl með 8. bekk og íþróttakennarar höfðu íþróttatíma eldri deildar í formi fyrirlestra og umræðna um hollustu og heilbrigðan lífstíl. 9. og 10. bekkur tóku þátt í ,,Forvarnardeginum,“ verkefni sem sett var á laggirnar fyrir þremur árum fyrir tilstuðlan forseta Íslands. Sjá nánar á forvarnardagurinn.is . Að kvöldi 6. nóvember var hið árlega Forvarnar-og æskulýðsball og lék hljómsveitin ,,Skítamórall“ fyrir dansi.
Helgina eftir fór 9. bekkur í verkefnið ,,Að hugsa um barn.“ Það voru foreldrafulltrúar bekkjarins og Hanna Sigríður, starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar Óðals sem báru hitann og þungann af undirbúningi þess en ýmis félagasamtök og fyrirtæki styrktu verkefnið.