8. bekkur í skólabúðum á Reykjum

Ritstjórn Fréttir

Nemendur 8. bekkjar héldu í gærmorgun af stað norður í Hrútafjörð en þeir munu verja þessari viku við leik og störf í skólabúðum á Reykjum. Með þeim í för eru kennararnir Bjarney Bjarnadóttir, Dagmar Harðardóttir og Sóley Ósk Sigurgeirsdóttir.

Í skólabúðunum er lögð áhersla á eftirfarandi uppeldis- og félagsleg markmið og að því stefnt:

  • að auka samstöðu og efla samvinnu milli kennara og nemenda
  • að auka félagslega aðlögun nemenda
  • að þroska sjálfstæði nemenda
  • að nemendur fáist við áður óþekkt viðfangsefni
  • að nemendur kynnist nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta
  • að örva löngun nemenda til að athuga og rannsaka umhverfið og komast að niðurstöðu
  • að auka athyglisgáfu nemenda.

Einnig er það markmið skólabúðanna að venja nemendur við að búa fjarri foreldrahúsum, sofa á ókunnum stað, sjá um sig, hafa reglu á fötum og fatnaði og hirða herbergi sín. Hvað þetta varðar njóta nemendur tilsagnar kennara og starfsfólks skólabúðanna.

Viðfangsefnin eru margvísleg; svo sem íþróttir, náttúrufræði og kvöldvökur á hverju kvöldi. Farið er í sögugöngu um Reykjatangann en þar var herstöð á hernámsárunum sem hýsti um 1000 hermenn í 150 bröggum. Nemendur heimsækja Byggðasafnið á Reykjum og fá þar fræðslu um hákarlaveiðar við Húnaflóa og vinna ýmis verkefni.

Í mötuneyti skólabúðanna er lögð áhersla á fjölbreytt mataræði og er allur matur eldaður frá grunni á staðnum. Þar er lagður metnaður í að koma til móts við þá sem hafa ofnæmi fyrir ákveðnum fæðutegundum og auk þess er boðið upp á sérstakan matseðil fyrir veganfólk og grænmetisætur.