Útvarp Óðal á FM 101,3

Ritstjórn Fréttir

Um árabil hefur Nemendafélag Grunnskólans í Borgarnesi staðið fyrir útsendingum útvarps á aðventu. Það er orðinn fastur þáttur í lífi margra Borgnesinga að hlusta á ungdóminn flytja efni af ýmsum toga meðan þeir vinna að jólaundirbúningnum eða sinna sínum stöfum. Síðustu ár hafa nemendur úr Varmalandsskóla og Grunnskóla Borgarfjarðar einnig komið að útvarpinu og flutt þætti.

Í Grunnskólanum í Borgarensi eru allir nemendur skólans þátttakendur í verkefninu á einn eða annan hátt. Nemendur yngri bekkja gera sameiginlegan bekkjarþátt og er efnið eins mismunandi og bekkirnir eru margir. Þeir vinna undir styrkri leiðsögn kennara sinna sem leggja á sig töluverða og metnaðarfulla vinnu við að gera þáttinn góðan, valið er vandað og æfingar stífar. Lokahnykkurinn er upptakan í Óðali sem fer fram í vikunni fyrir útsendingu, þar þurfa allir að taka á til að gera sitt besta.
Nemendur í þremur elstu bekkjum skólans fá tækifæri til að vera með þátt í beinni útsendingu. Undirbúningur þáttanna fer alfarið fram í skólanum. Í allnokkur ár hefur Jólaútvarpið verið tekið sem sérstakt verkefni í íslenskukennslu, enda einstaklega vel til þess fallið að koma markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla til skila á eftirtektarverðan og skemmtilegan hátt. Það eru íslenskukennarar bekkjanna sem stýra vinnunni. Nemendur vinna gjarnan tveir til þrír saman og er vinnan mjög formleg, með tímamælingum, nákvæmum handritum og miklum kröfum um gott og frambærilegt mál. Kennarar fara yfir handritin sem síðan er skilað til starfsmanna í Félagsmiðstöðinni Óðali. Þeir bera hitann og þungann af útsendingunni ásamt nokkrum nemendum eru tæknimenn sem sjá um tæknimál, bæði við upptöku þátta yngri bekkja og í beinni útsendingu þátta eldri nemenda. Við erum afar stolt af þessu verkefni.
Órjúfanglegur þáttur jólaútvarpsins eru auglýsingarnar. Fyrirtæki sveitarfélagsins styrkja útsendingu útvarpsins með því að kaupa auglýsingar sem eru fluttar á milli þátta. Unglingarnir sjá alfarið um að semja auglýsingarnar, lesa, leika og eða syngja þær.
Í ár verður Jólaútvarpið sent út frá 8. – 12. desember og dagskráin með svipuðu sniði og undanfarin ár; útsendingar byrja klukkan 10:00 um morguninn og síðasti þátturinn verður sendur út klukkan 22:00 um kvöldið. Á morgnana verða þættirnir frá 1.-7. bekk sendir út. Í hádeginu verður tekinn púlsinn á bæjarlífinu og fluttar fréttir dagsins ásamt íþróttafréttum. Á milli klukkan 13:00 og 22:00 verða síðan þættir í beinni útsendingu frá nemendum í 8.-10. bekk úr grunnskólum Borgarbyggðar, nemendum Menntaskóla Borgarfjarðar og Ungmennahúsinu Mími.