Leikskólabörn í heimsókn í Grunnskólanum

Ritstjórn Fréttir

Í um áratug hefur verið talsvert samstarf á milli Grunnskólans í Borgarnesi og leikskólans Klettaborgar og á árinu 2008 bættist leikskólinn Ugluklettur í hópinn. Hlutverk þessa samstarfs hefur verið að brúa bilið á milli leikskóla og grunnskóla með hagsmuni nemendanna að leiðarljósi. Eitt af verkefnunum er að bjóða elstu nemendum leikskólans í heimsóknir eftir ármót á því ári sem þeir hefja skólagöngu. Nemendur koma í 4-6 manna hópum ásamt leikskólakennurum og taka þátt í skólastarfinu með 1.bekk grunnskólans. Áður en þessar heimsóknir hefjast kemur allur elsti árgangurinn í heimsókn til að skoða skólahúsnæðið. Föstudaginn 9.janúar kom hópurinn í heimsókn að þessu tilefni. Eftir að hafa farið um skólann, heimsótt skólastjórann og sungið með tónmenntakennaranum sem þau þekkja úr leikskólanum var farið í heimsókn í Tómstundaskólann.