1. B í fjallgöngu

Ritstjórn Fréttir

Kl. 12 á hádegi laugardagsins 10. maí safnaðist saman um þrjátíu manna hópur á bílastæðinu neðan við Grábrók í Norðurárdal. Voru þarna samankomnir flestir nemendur 1. B í Grunnskóla Borgarness ásamt foreldrum, systkynum, vinum og öðrum vandamönnum.
Í fallegu veðri hélt þessi föngulegi hópur á fjallið og náðu allir toppnum stoltir en nokkuð rjóðir í kinnum. Eftir að hafa virt fyrir sér fallegt útsýnið nokkra stund, og kastað mæðinni, var haldið niður og ekið niðurfyrir Bifröst að bílastæði rétt við þjóðveginn. Þaðan var síðan gengið og fossinn Glanni í Norðurá skoðaður áður en haldið var í Paradísarlaut. Þar borðaði hópurinn nesti ásamt því sem nánasta umhverfi var skoðað. Eftir góða stund hélt síðan hver til síns heima eftir skemmtilega ferð.