Skíðaferð 8. bekkjar 16. – 17. apríl 2009

Ritstjórn Fréttir

Eins og undanfarin ár fór 8. bekkur í skíðaferð og að þessu sinni lá leiðin til Dalvíkur. Lagt var af stað frá skólanum að morgni fimmtudagsins 16. apríl og ekið til Dalvíkur með viðkomu í sjoppu á leiðinni. Þegar komið var til Dalvíkur var blíðskaparveður með sólskini og ekið var beint í skíðaskála Dalvíkinga við Böggvisstaðafjall. Farangrinum var komið fyrir inni í skála og af því loknu lá leiðin í skíðaleiguna (þeir sem ekki voru með eigin skíði) og ýmist voru þar fengin skíði eða bretti. Þegar allir voru komnir með viðeigandi búnað var skíðakennsla þar til allir gátu staðið á skíðunum, komið sér upp í lyftunni og niður brekkuna áfallalaust. Skíðað var til klukkan 17 og þá var rölt niður í byggð og farið í sund. Að því loknu var farið á Olís og allir fengu sér að borða. Eftir matinn var farið aftur upp í skála og aftur á skíði. Skíðað var til kl. 22 og þá farið inn í skála og sprellað fram undir miðnætti.
Föstudagsmorguninn var tekinn með ró og ekki farið á kreik fyrr en um kl. 9. Þá var snæddur morgunverður (nesti að heiman) og svo farið á skíðin/brettin um kl. 10. Sólarlaust var þennan dag en mjög stillt og gott veður. Skíðað var til kl. 15:00 með nestispásum þegar það hentaði hverjum og einum og svo lagt af stað heim um kl. 15:30, stoppað á Blönduósi í sjoppu og komið heim í Borgarnes rétt fyrir kl. 20.
Ferðin gekk vel í alla staði og allir snéru heilir heim, glaðir og ánægðir.