
Nemendur og kennarar 7. – 9. bekkjar, Grunnskólans í Borgarnesi, brugðu undir sig betri fætinum og notuðu daginn til útivistar. Veðrið var ágætt, heiðskírt og þurrt en nokkur vindur. Nemendur höfðu valið einn af fjórum ólíkum stöðum og stóð valið á milli gönguferða á Hafnarfjall þar sem allir náðu því markmiði að skrifa í gestabókina á toppi fjallsins og létu það ekki á sig fá þó blési nokkuð og leiðin upp öll á fótinn. Aðrir fóru á Skálafell og niður Árdalsgil, nokkuð strembin ganga, brött og grýtt og reyndi nokkuð á þrautseigju og þol í fyrstu en seinni hluti leiðarinnar var auðveldari og gott að kæla þreyttar fætur í köldu vatninu í Árdalsgili. Einkunnir er fallegt og stórbrotið útivistarsvæði við túngarðinn hjá okkur. Þangað fór föngulegur hópur í gönguferð frá Álatjörn að Háfsvatni og til baka. Hópurinn dvaldi síðan við Álatjörn þar sem sumir reyndu að veiða og enn aðrir að vaða. Þá var kveikt upp í grilli og gafst nemendum kostur á að grilla sér pylsur og fleira. Enn aðrir spreyttu sig á að spila golf á golfvellinum á Hamri. Þar voru bæði reyndir golfarar og fólk sem var að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni. Ferðirnar voru vel heppnaðar og allir komu þreyttir en glaðir heim.
Myndir úr ferðunum má sjá með því að smella á hnapp merktur Myndir hér fyrir ofan.