9. bekkur í ungmenna- og tómstundabúðum á Laugum

Ritstjórn Fréttir

5053326
Nemendur 9. bekkjar dvelja dagana 17. – 21. október í ungmenna- og tómstundabúðum á Laugum í Sælingsdal. Starfsemi búðanna hófst árið 2005 og dvelja hátt í tvö þúsund 9. bekkinga þar árlega við nám og leik.
Markmið búðanna eru fyrst og fremst að hvetja nemendur til að vera virka í félags- og tómstundastarfi, efla hjá þeim sjálfstraust, samvinnu og tillitssemi auk þess að kynna þá fyrir sögu og nánasta umhverfi staðarins. Starfað er í anda heilsueflandi grunnskóla og grænfánans.
Nemendahóparnir koma að Laugum á mánudagsmorgnum, sækja ýmis konar námskeið á meðan á dvölinni stendur og halda heim á leið um hádegisbil á föstudögum. Dagskráin er afar fjölbreytt.
Nemendum er skipt í nokkur lið sem safna stigum frá fyrsta degi og fram á fimmtudagskvöldið. Hægt er að fá stig fyrir frammistöðu í námskeiðum sem haldin eru og geta nemendurnir fylgst með framvindu liðs síns á þar til gerðri stigatöflu. Stigakeppnin endar á fimmtudagskvöldinu með Laugaleikunum svokölluðu. Þess er gætt að liðin séu svipuð í félagslegum og líkamlegum styrk og ef fleiri en einn skóli er í búðunum í einu er þess gætt að hlutfall nemenda úr skólunum séu jöfn í liðunum. Áhersla er lögð á gleðina og skemmtunina sem felst í því að vera hluti af hóp en minni áhersla er lögð á hvaða lið vinna og tapa.
Sölvi G. Gylfason, umsjónarkennari 9. bekkjar, er í för með Borgnesingunum en auk þeirra dvelja nemendur úr Laugagerðisskóla í skóla- og tómstundabúðunum.