9. bekkur í ungmenna- og tómstundabúðum

Ritstjórn Fréttir

Nemendur 9. bekkjar lögðu land undir fót í morgun og var förinni heitið að Laugum í Sælingsdal. Ungmenna- og tómstundabúðirnar á Laugum eru reknar af Ungmennafélagi Íslands og eru þær ætlaðar nemendum 9. bekkja grunnskólanna. Nemendur víðsvegar af landinu dvelja á Laugum frá mánudegi til föstudags við leik og störf. Ungmenna- og tómstundabúðirnar hófu starfsemi sína í janúar árið 2005 og hefur Grunnskólinn í Borgarnesi verið þátttakandi frá upphafi.
Dagskráin á Laugum byggir á fjórum meginstoðum; menningu, útivist, hreyfingu og félagsfærni. Markmiðið með dvölinni á Laugum er að styrkja félagsfærni unglinga, efla vitund þeirra um umhverfi sitt og samfélag og mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.
Áhersla á umhverfismál og heilsueflingu hefur aukist í búðunum undanfarin ár og eru Ungmennabúðirnar núna hluti af Grænfánaverkefni Landverndar og Heilsueflandi grunnskóla. Grunnskólinn í Borgarnesi tekur þátt í báðum þeim verkefnum.
Fararstjórar eru kennararnir Rán Höskuldsdóttir og Haraldur Már Stefánsson.