Komdu og skoðaðu fjöllin

Ritstjórn Fréttir

3.bekkur, árgangur 2001 hefur verið að vinna námsefnið Komdu og skoðaðu fjöllin. Samhliða þeirri vinnu var unnið með bókina Gula sendibréfið eftir Sigrúnu Eldjárn í samræmi við byrjendalæsið.
Nemendur hafa fræðst um helstu fjöll Íslands og horft á myndband af eldgosinu í Heimaey. Fanney Kristjánsdóttir stuðningsfulltrúi sagði okkur reynslusögu sína af því þegar eldgosið hófst árið 1973.
Eftir þá vinnu var unnið í hópum en hver hópur fékk ákveðið fjall til að vinna með þ.e. skrifa upplýsingar um það og teikna mynd. Unnið var með Íslandskort og heimilir voru m.a. fengnar af vefnum www.nams.is/komdu og skoðaðu fjöllin.
Fjöllin sem tekin voru fyrir eru Skjaldbreiður, Hekla, Öræfajökull, Dyrfjöll, Herðubreið, Hornbjarg, Snæfellsjökull og Esja. Eftir að hóparnir voru búnir að vinna textann og teikna myndina var haldinn sameiginlegur fundur þar sem hóparnir kynntu fjallið sitt.
Einn daginn barst okkur kennurunum gult sendibréf. En það var frá Gabríellu, einni persónunni úr bókinni Gula sendibréfið. Hún hafði frétt af fjallavinnunni hjá þessum árgangi og vildi fá ýmsar upplýsingar frá þeim. Í framhaldi af þessu lærðu nemendur að skrifa sendibréf með því að svara Gabríellu.
Í nestistímum var síðan lesin bókin Edda týnist í eldgosinu eftir Herdísi Egilsdóttur.
Kveðja Arna og Fríða