Heimsókn á Dvalarheimilið

Ritstjórn Fréttir

Yngri nemendur skólans munu í vetur fara í heimsóknir á Dvalarheimilið, sjálfum sér og öðrum til skemmtunar og fróðleiks. 6. bekkur er búinn að fara og er hér að neðan að finna frásögn af þeim heimsóknum og eins nokkrar myndir.
Í dag, fimmtudag, fór síðari hópurinn í 6. bekk í heimsókn á Dvalarheimilið. Krakkarnir fengu fylgd um allt heimilið, kíktu inn á herbergi hjá nokkrum, komu við í eldhúsinu þar sem verið var að baka og elda mat á fullum krafti, kíktu í þvottahúsið þar sem allt er mjög skipulagt, hver og einn með sitt númer á fötunum til að þau skili sér hrein í réttar hendur. Fyrir viku síðan fylgdist hópurinn með sláturgerð og furðuðu þau sig á því hve mikið það var sem var verið að búa til. Eitt af einkennum okkar Íslendinga er að forvitnast um hverra manna hver og einn er og þurftu krakkarnir að gera grein fyrir því hver þeir væru og voru spurð í þaula. Þeir stóðu sig mjög vel og höfðu gaman að þessu. Eftir skoðunarferð um heimilið settust krakkarnir niður með eldra fólkinu í föndrinu, spiluðu og spjölluðu saman og nokkrir gripu í að búa til sláturnælur. Þessar heimsóknir hafa í alla staði verið mjög skemmtilegar bæði fyrir unga sem aldna.