Lífshlaupið

Ritstjórn Fréttir

Skólinn hefur ákveðið að taka þátt í Lífshlaupinu 2010, átaks- og hvatningarverkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Lífshlaupið verður ræst miðvikudaginn 3. febrúar og stendur til 23. febrúar. Landsmenn hafa tekið Lífshlaupinu gríðarlega vel. Heildarfjöldi þátttakenda jókst um 1.582 á milli ára úr 7.700 árið 2008 í 9.282 árið 2009.
Megin markmið verkefnisins er að hvetja landsmenn til þess að hreyfa sig og tileinka sér heilbrigða lífshætti. Við ætlum að taka þátt í hvatningarleik fyrir grunnskóla þar sem nemendur okkar keppa við aðra skóla um það hvort þeir nái að hreyfa sig í 60 mínútur daglega eða á meðan átakið stendur yfir. Starfsfólk skólans ætlar einnig að taka þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins en einnig er hægt að taka þátt í einstaklingskeppni sem stendur yfir allt árið. Lífshlaupið hentar því fyrir alla. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess www.lifshlaupid.is