Grunnskólinn í Borgarnesi tekur þátt í verkefninu Skóli á grænni grein og stefnir að því að draga grænfánann að húni í 8. sinn næsta haust. Umhverfisnefnd skólans er skipuð fulltrúum úr 2. – 10. bekk auk fulltrúa foreldra, starfsfólks og kennara. Í kynningu nefndarmanna á unglingastigi kemur fram að undanfarin tvö ár hefur áhersla verið lögð á eftirtalda þætti í skólastarfinu: Að takmarka sorp og flokka betur; að nýta betur pappír; að fara vel með bækur og aðrar eigur skólans; að koma óskilamunum í réttar hendur og að beita sér fyrir fræðslu um umhverfismál. Ýmis verkefni hafa verið unnin í skólanum í þessu sambandi, umhverfisdagar og plokkdagar haldnir, og fulltrúi Landverndar og umhverfisfulltrúi Borgarbyggðar heimsóttu skólann og fræddu um umhverfismál. Nýr umhverfissáttmáli hefur verið valinn fyrir næstu tvö ár: Að flokka hvern dag kemur skapinu í lag!