Æfing fyrir hnetu- og eggjalausan skóla

Ritstjórn Fréttir

Næsta vetur hefur nám hjá okkur drengur með bráðaofnæmi fyrir hnetum, eggjum, mjólk og hestum. Hnetur og egg verða algerlega bönnuð í skólanum og íþróttahúsinu sem og matvæli sem innihalda þessi efni.

Mikilvægt er að passa vel upp á hvað nemendur sem koma með nesti taka með sér í skólann. Skoða þarf innihaldslýsingar matvæla vel og gæta þess að nemendur komi ekki með neitt í skólann sem kann að innihalda hnetur eða egg.

Jafnframt verður fólk beðið um að takmarka eins og hægt er að bera hestahár með sér í skólann og nota ekki sama fatnað og skó í hesthúsum og skólanum.

Dagana 25. – 28. maí næstkomandi ætlum við að æfa okkur hér í skólanum að vera hnetu- og eggjalaus skóli. Við beinum þeim tilmælum til heimilanna að þau taki þátt í æfingunni með okkur með því að gæta þess að nemendur komi ekki með neitt sem inniheldur hnetur eða egg í skólann og að þeir gæti fyllsta hreinlætis hafi þeir umgengist hesta.