Ágúst Davíð tekur þátt í Upptaktinum 2022

Ritstjórn Fréttir

Ágúst Davíð Steinarsson nemandi í 10. bekk stundar nám í píanóleik við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Kennari hans er Birna Þorsteinsdóttir. Lag Ágústs Vals í c-moll hefur verið valið til þátttöku í Upptaktinum 2022.

Upptakturinn fer nú fram í 10. sinn. Markmið hans eru að stuðla að tónsköpun ungs fólks og hvetja börn og ungmenni til að semja eigin tónlist; að aðstoða börn og ungmenni við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju og varðveita þannig tónlistina og loks að gefa börnum og ungmennum tækifæri á að upplifa eigin tónlist í flutningi fagfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Hörpu.

Tónverkin sem valin voru að þessu sinni eru síðan fullunnin í tónsmiðju með tónskáldum og fagfólki í tónlist. Tónsmiðjan fer fram í Listaháskóla Íslands og Hörpu dagana 7.-19. mars 2022. Að því ferli loknu hafa orðið til ný tónverk.  Þriðjudaginn 5. apríl 2022 verða tónverkin  flutt á glæsilegri tónleikadagskrá í Silfurbergi í Hörpu. Tónleikarnir eru hluti af opnunarhátíð Barnamenningar í Reykjavík. Hljóðfæraleik og framkvæmd annast fagfólk í tónlist. Öll verkin sem flutt verða á tónleikunum hljóta tónsköpunarverðlaunin Upptakturinn 2022.

Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands. Í samstarfi við Upptaktinn eru einnig Tónlistarmiðstöð Austurlands, Garðabær, Borgarbyggð, Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær og Menningarfélag Akureyrar.

Við óskum Ágústi Davíð til hamingju með þennan góða árangur og óskum honum heilla á listabrautinni.