Þrjár stúlkur í 4. bekk, þær Aleta Von Mýrdal Ríkharðsdóttir, Eyja Dröfn Svölu Pétursdóttir og Svandís Svava Halldórsdóttir, unnu til verðlauna í árlegri teiknisamkeppni Mjólkursamsölunnar. Teiknisamkeppnin er fyrir 4. bekkinga og er haldin í tengslum við alþjóðlega skólamjólkurdaginn. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók þátt í vali á verðlaunamyndunum og þótti honum mikið til myndanna koma og átti vart til orð yfir hæfileikum og hugmyndaflugi nemendanna.
Rétt tæplega 1.300 myndir bárust í keppnina að þessu sinni frá 51 skóla víðsvegar um landið. Tíu myndir unnu til verðlauna. Verðlaunahöfum eru veitt viðurkenningarskjöl fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá MS. Verðlaunaféð rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi.
Verðlaunamyndirnar í ár eru eins ólíkar og þær eru margar en eiga það sameiginlegt að á þeim öllum má sjá kú eða vísun í kýr, en kýr og mjólkurfernur eru án efa vinsælustu viðfangsefni nemenda þó myndefnið sé frjálst.