Bál tímans – list fyrir alla

Ritstjórn Fréttir

Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur og Eva María Jónsdóttir starfsmaður Árnastofnunar hittu nemendur 4. – 7. bekkja í dag. Markmið heimsóknar þeirra var að kynna skinnhandritin okkar gömlu fyrir nemendum. Þær ræddu um efni handritanna og gerð þeirra, hverjir skrifuðu þau, hvernig þau varðveittust og hvaða þýðingu þau hafa í samtímanum.

Arndís las úr bók sinni Bál tímans sem er söguleg skáldsaga fyrir börn og unglinga. Sagan er  óvenjuleg á margan hátt; hún er sögð frá sjónarhorni sagnahandritsins Möðruvallabókar og er bókin sjálf bæði sögumaður og aðalpersóna. Hún segir frá uppruna sínum og ýmsu því sem á daga hennar drífur í gegnum aldirnar, en sagan hefst við ritun Möðruvallabókar í kringum árið 1330. Frásögnin nær yfir rúm sjö hundruð ár, allt til dagsins í dag og reyndar aðeins lengra fram í tímann því henni lýkur árið 2023 þegar verið er að koma Möðruvallabók fyrir í Húsi íslenskunnar sem nú er í smíðum.

Heimsóknin er hluti af verkefninu List fyrir alla sem hefur það meðal annars að markmiði að veita börnum og ungmennum á Íslandi aðgang að menningarviðburðum og styrkja vitund barna og ungmenna um menningararfinn.