Bál tímans – list fyrir alla

Ritstjórn Fréttir

Nemendur á miðstigi eiga von á góðri heimsókn á mánudaginn. Þá verður þeim boðið á sýninguna Bál tímans – kveikjum ljós um miðaldahandritin.

List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Listverkefnið Bál tímans er hugsað fyrir miðstig grunnskóla og tekur um 40 mínútur í flutningi. Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur og Eva María Jónsdóttir miðlari frá Árnastofnun hafa sett saman skemmtilega og fræðandi dagskrá um hin dýru og forvitnilegu miðaldahandrit sem varðveitt eru hér á landi.

Markmið heimsóknarinnar er að kynna nemendur fyrir skinnhandritunum okkar gömlu. Nemendum er sagt hvað stendur í handritunum, hverjir skrifuðu þau, hvernig þau varðveittust og hvaða þýðingu þau hafa í samtímanum. Þeim eru sýndar myndir, sagðar sögur og sýndar eftirlíkingar af handritunum. Nemendum er sagt frá því hvaða rannsóknir eru stundaðar á handritunum í dag og þeim sýnt fram á það hversu ævintýralegt það er að handritin séu enn til, mörg hundruð árum eftir ritun þeirra. Heimsóknin er blanda af bókmenntakynningu og fræðsludagskrá, hugsuð til þess að kveikja áhuga og forvitni.