Söngkeppni SamVest fór fram á Hólmavík þann 2. febrúar sl. Þar var saman kominn fjöldi ungmenna frá félagsmiðstöðvum af Vesturlandi, í Strandabyggð og á Reykhólum. Krakkarnir fluttu fjölbreytt skemmtiatriði frá félagsmiðstöðvunum, blönduðu geði og skemmtu sér saman. Mæting var mjög góð og telja aðstandendur keppninnar að sjaldan hafi jafn mörg ungmenni komið saman á Hólmavík, eða um 250 talsins.
Bára Sara Guðfinnsdóttir frá félagsmiðstöðinni Óðali í Borgarnesi fór með sigur af hólmi í söngkeppninni. Hún söng lagið We don‘t have to take our clothes off eftir Ella Eyre.
Tvö efstu sætin í keppninni veita þátttökurétt í lokakeppninni, Söngkeppni Samfés, sem fer fram í Laugardalshöll 25. mars næstkomandi. Þar verður Borgnesingurinn Bára Sara Guðfinnsdóttir fulltrúi Vestlendinga, en fulltrúar félagsmiðstöðva af landinu öllu munu flytja þar lög fyrir jafnaldra sína og gesti.