Snorrastofa í Reykholti stóð fyrir mikilli barnamenningarhátíð miðvikudaginn 8. maí 2019 í samstarfi við menningarfulltrúa Vesturlands og Uppbyggingarsjóð Vesturlands.
Stofnað hefur verið til samstarfs við grunnskóla í héraðinu um hátíðina sem haldin er þriðja hvert ár. Þeir eru Auðarskóli í Búðardal, Grunnskóli Borgarfjarðar, Grunnskólinn í Borgarnesi, Reykhólaskóli og Laugargerðisskóli.
Markmið hátíðarinnar felst í því að börnum, sem eru að læra um Snorra Sturluson og miðaldir í grunnskólunum er boðið til hátíðar í Reykholti. Þar sýna þau verkefni sín um Snorra og fá fræðslu og ýmsar uppákomur í anda Snorra og samtíðar hans.
Dagskráin í Reykholti var afar fjölbreytt. Börnin kynntu verkefni sín, bökuðu brauð að hætti fornmanna, fóru í ratleik, horfðu á leikrit um Gísla Súrsson, hlýddu á miðaldatónlist og spreyttu sig á því að skrifa á skinn undir leiðsögn starfsmanns Árnastofnunar. Þess má til gamans geta að dagskránni voru gerð góð skil í sjónvarpsþættinum Landanum þann 12. maí.


