Lestur er bestur – út fyrir endimörk alheimsins

Ritstjórn Fréttir

Veggspjald-vefupplausn
Bókasafnsdagurinn verður haldinn hátíðlegur í sjötta sinn um allt land fimmtudaginn 8. september næstkomandi. Yfirskrift hans að þessu sinni er: Lestur er bestur – út fyrir endimörk alheimsins. Markmið bókasafnsdagsins er tvíþætt; annars vegar að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu og hins vegar að vera dagur starfsmanna safnanna. Í tilefni dagsins verður efnt til skiptibókamarkaðar á skólabókasafninu, rétt eins og fyrir ári. Þeir sem vilja mega koma með bók og velja sér aðra í staðinn. Bókagjafir eru einnig vel þegnar. Á unglingurinn á heimilinu kannski vel með farna barnabók sem er að rykfalla í bókahillunni? Hvað með allar sumarfrísbækurnar sem starfsfólkið keypti í sumar? Allir fá bókamerki með merki dagsins. Markaðurinn hefst kl. 10.00 og stendur til 14.00. Nemendur, kennarar og annað starfsfólk er hvatt til að taka þátt og foreldrar og forráðamenn eru líka velkomnir.  Látið berast!