Bóndadagur hafður í heiðri

Ritstjórn Fréttir

Margir í hópi nemenda og kennara klæddust þjóðlegum fatnaði í tilefni bóndadagsins. Það komust þó engir með tærnar þar sem þær Margrét Skúladóttir og Jónína Laufey Jónsdóttir höfðu hælana en þær klæddust handsaumuðum íslenskum búningum (sjá mynd).
Það er Gréta sem á heiðurinn af saumaskapnum en búningasaumur hefur verið eitt helsta áhugamál hennar um árabil. Hún hefur saumað fjölmarga kven- og karlbúninga frá ýmsum tímaskeiðum og notið við það handleiðslu Guðrúnar Hildar Rosenkær hjá Annríki.
Á myndinni er Gréta í 19. aldar upphlut og Jónína klæðist faldbúningi frá því um 1800 og hefur spaðafald á höfði.