Borgnesingar á fjölþjóðlegum Erasmus+ fundi í Þýskalandi

Ritstjórn Fréttir

Þann 4. desember s.l. fóru sex nemendur og tveir kennarar úr Grunnskólanum í Borgarnesi til Þýskalands og hittu þar nemendur og kennara frá samstarfsskólum í Finnlandi, Lettlandi, Portugal, Spáni og tveimur skólum í Þýskalandi. Þessir sjö skólar vinna saman í Evrópuverkefni sem kallast Water Around Us (WAU) en verkefnið er styrkt af evrópsku menntaáætluninni Erasmus+.
Nemendunum var skipt niður á tvo bæi Werneck og Bergrheinfeld þar sem þeir gistu hjá gestgjöfum sem þeir höfðu verið í sambandi við síðustu vikurnar fyrir brottför. Kennararnir gistu á hóteli í Schweinfurt sem er stutt frá bæjunum.
Á daginn var skipulögð dagskrá þar sem nemendur og kennarar tóku þátt í margs konar verkefnum. Einnig var farið í nokkrar skoðunarferðir. Bæði nemendur og kennarar fengu að skoða fallegu jólamarkaðina sem eru einkennandi fyrir Þýskaland í desember. Á þriðjudeginum fóru allir í sund í Nurnmberg, þar voru margar mismunandi laugar, pottar og fullt af rennibrautum. Á fimmtudeginum fór hópurinn í siglingu á ánni Main, og seinna um kvöldið var haldið sundlaugarpartí, þar sem boðið var upp á drykki og puttamat. Síðasta daginn héldu nemendur frá hverju landi kynningu, sýndu glærur og fjölluðu um vatn í nágrenni sínu. Krakkarnir frá Borgarnesi gerðu mjög góða kynningu um Deildartunguhver. Þann 10. desember var kominn tími á að fara aftur heim og margir felldu tár þennan dag.
Á myndinni eru í aftari röð þau Gréta Skúladóttir kennari, Svava Pétursdóttir, Gunnar Örn Ómarsson, Sigurður Aron Þorsteinsson, Daníel Victor Herwigsson og Helga Stefanía Magnúsdóttir kennari. Fremst á myndinni eru Sóley Ásta Orradóttir og Arna Jara Jökulsdóttir.