Brautskráning nemenda

Ritstjórn Fréttir

Þann 5. júní voru 27 nemendur 10. bekkjar grunnskólans brautskráðir við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti. Júlía Guðjónsdóttir, skólastjóri, ræddi í ávarpi sínu þá jákvæðni og lausnamiðun sem einkennt hefur skólastarfið við óvenjulegar aðstæður í vetur. Framkvæmdir við skólahúsnæðið ollu því að flytja þurfti unglingadeildina, 100 nemendur, yfir í MB og kenna þar til 1. október. Kórónuveirufaraldurinn setti sannarlega svip á skólastarfið og þær fjöldatakmarkanir sem enn gilda gerðu að verkum að skólaslit voru með óhefðbundnu sniði; gestir færri en vant er og ekkert kaffihlaðborð! Starfskynningar á vegum Rótarý féllu niður, sem og árshátíðin og áfram mætti telja. Þrátt fyrir allt gekk skólastarfið vel og sérstök áhersla var lögð á að vinna með skólabraginn og bekkjarandann og að efla þrautseigju og auka vellíðan nemenda. Niðurstöður Skólapúlsins benda til að skólinn sé á réttri leið hvað þá þætti varðar. Þá nefndi Júlía endurmenntun starfsfólks og að nú hafi það náð þeim áfanga að kalla megi skólann teymiskennsluskóla.

Júlía hvatti útskriftarnema til að fylgjast hvert með öðru í framtíðinni, styðja hvert annað og vera fyrst og fremst góðar manneskjur, fordómalausar og víðsýnar.

Eiríkur Jónsson flutti ávarp af hálfu foreldra og ávörp nemenda fluttu Elínóra Ýr Kristjánsdóttir og Lúkas Guðnason. Ávörp kennara fluttu Haraldur Már Stefánsson og Helga Stefanía Magnúsdóttir. Strákarnir í 10. bekk fluttu tónlistaratriði og Díana Dóra Bergmann Baldursdóttir og Signý María Völundardóttir sungu sitt lagið hvor.

Viðurkenningar fyrir ágætan námsárangur hlutu Andrea Ína Jökulsdóttir, Aron Ingi Björnsson, Díana Dóra Bergmann Baldursdóttir, Elínóra Ýr Kristjánsdóttir og Halldór Kristján Knudsen. Viðurkenningar fyrir störf í þágu nemendafélagsins hlutu Elín Björk Sigurþórsdóttir, Elínóra Ýr Kristjánsdóttir og Jónas Bjarki Reynisson.