23 nemendur voru brautskráðir frá Grunnskólanum í Borgarnesi þann 8. júní. Athöfnin fór fram í sal skólans og er það í fyrsta sinn sem hann er notaður við brautskráningu. Júlía Guðjónsdóttir skólastjóri stýrði athöfninni. Signý Óskarsdóttir flutti ávarp af hálfu foreldra og lagði út af heilræðavísum Hallgríms Péturssonar. Elva Dögg Magnúsdóttir talaði af hálfu útskriftarnema og Edda María Jónsdóttir og Kolbrún Líf Jónsdóttir sungu frumsaminn texta um kennara bekkjarins. Birna Hlín Guðjónsdóttir og Inga Margrét Skúladóttir umsjónarkennarar fluttu sameiginlegt ávarp og rifjuðu upp skemmtilegar minningar frá þriggja ára vegferð auk þess sem þær gáfu nemendum ýmis heilræði í veganesti.
Viðurkenningar hlutu þau Embla Líf Andradóttir fyrir góðan árangur í íslensku, dönsku og náttúrufræði; Elva Dögg Magnúsdóttir fyrir samfélagsfræði, Örn Einarsson fyrir stærðfræði, Kolbrún Líf Jónsdóttir fyrir ensku, Dagur Smári Pétursson fyrir íþróttir og Ólöf Inga Sigurjónsdóttir fyrir list- og verkgreinar. Viðurkenningar fyrir störf að félagsmálum hlutu Edda María Jónsdóttir, Elva Dögg Magnúsdóttir og Örn Einarsson. Þær Vildís Guðmundsdóttir og Ólöf Inga Sigurjónsdóttir hlutu viðurkenningar frá Kvenfélagi Borgarness fyrir framfarir og þrautseigju í námi. Kvenfélagið gaf líka verðlaunin fyrir stærðfræði að þessu sinni.
Í lokaorðum sínum hvatti Júlía Guðjónsdóttir skólastjóri nemendur til að temja sér þolinmæði, umburðarlyndi, víðsýni og samkennd; að gefast ekki upp við mótlæti og til að njóta lífsins og styðja hvert annað eftir megni.
Loks fengu gestir kaffi og kökur í boði foreldra.