Breyttar takmarkanir vegna sóttvarna

Ritstjórn Fréttir

Nýjar takmarkanir vegna sóttvarna taka gildi í dag, miðvikudaginn 18. nóvember og gilda þær til 1. desember.  Grunnskólum er nú heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum með 2 metra nálægðartakmörkunum milli starfsfólks. Einnig mega fullorðnir ekki vera fleiri en tíu í sama rými. Í bréfi Júlíu Guðjónsdóttur skólastjóra til foreldra kemur meðal annars fram:

  • Nemendur í 1.–4. bekk eru undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu. Þetta gildir einnig um starfsmenn inni í kennslustundum.
  • Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í 1.–4. bekk í hverju rými.
  • Hver árgangur í 1.- 4. bekk er eitt sóttvarnarhólf. Í frímínútum úti mega þó hóparnir/árgangarnir blandast.
  • Búið er að afnema grímuskyldu og nálægðartakmörk hjá 5. -7. bekk en ekki mega vera fleiri en 25 í sama rými.
  • List-og verkgreinakennsla í 5.-7. bekk verður með hefðbundnum hætti en þess ber þó að geta að nemendur og kennarar verða með grímur í þeim tímum þar sem hólfum er blandað saman innan árgangsins. Passað verður vel upp á sóttvarnir og reynt að halda nálægðartakmörkunum eins og hægt er.
  • Grímuskylda er enn hjá 8. -10. bekk og nálægðartakmörk.
  • Í íþróttum/sundi munu sóttvarnarhólfin haldast en ekki er alveg búið að ákveða hvernig því verður háttað.  Því byrjar sundkennslan ekki fyrr en í fyrsta lagi á föstudaginn. Foreldrar fá póst varðandi fyrirkomulag íþróttakennslu á morgun (fimmtudag).
  • Mötuneytið helst óbreytt. Þar borða nemendur eingöngu með sínu sóttvarnarhólfi. Ekki verður boðið upp á morgunverð á meðan á þessum takmörkunum stendur.
  • Hver árgangur er með eitt klósett til umráða.
  • Frístund er opin fyrir þá sem þar eru skráðir.

Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf, þ.m.t. starf félagsmiðstöðva barna á grunnskólaaldri er heimilt frá og með miðvikudeginum 18.11.2020.

Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til, þá beri þeir andlitsgrímur. Aðrir en starfsmenn sem koma inn í grunnskóla, svo sem kennarar, starfsfólk skólaþjónustu og vegna vöruflutninga, skulu bera andlitsgrímur.

Skipulagið er endurmetið reglulega.