Draumalandið

Ritstjórn Fréttir

Vegna tafa á afhendingu nýs skólahúsnæðis þurfti að hýsa unglingadeild grunnskólans í menntaskólanum fyrstu vikur skólaársins. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Nýjar aðstæður kölluðu á nýjar kennsluaðferðir og var árgöngunum þremur meira og minna kennt saman.

Námsgreinar voru samþættar í stóru verkefni sem hlaut nafnið Draumalandið. Nemendur unnu í litlum hópum og gerðu líkan eða kort að draumalöndum sínum. Síðan unnu hóparnir að kynningu á draumalandinu þar sem fram komu upplýsingar um allt það sem gerir land að landi og samfélag að samfélagi.

Í verkefninu þurftu nemendur að gera grein fyrir þáttum á borð við trúarbrögð, tungumál, menntun, stéttaskiptingu, jöfnuð, réttindi þegnanna, fjölskylduhagi, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, efnahag, auðlindir, samgöngur, menningarmál, landslag, loftslag, veðurfar, mannfjölda, stjórnskipulag og áfram mætti lengi telja.

Í lok september var haldin sýning á Draumalandinu í Hjálmakletti. Þar mátti sjá nemendur miðla þekkingu sinni og leikni með fjölbreyttum aðferðum og í rituðu máli á þremur tungumálum; íslensku, ensku og dönsku. Auk þess sátu nemendur fyrir svörum og fræddu sýningargesti um hvaðeina sem viðkom vinnunni við verkefnið sem og draumalöndin sjálf og lífið í þeim.

Nú halda nemendur unglingastigsins aftur upp í grunnskóla og við taka hefðbundnari kennsluaðferðir í nýju og glæsilegu húsnæði.