Dregur úr einelti og þrautseigja eykst

Ritstjórn Fréttir

Niðurstöður Skólapúlsins fyrir skömmu benda til að í Grunnskólanum í Borgarnesi dragi úr einelti og að þrautseigja nemenda aukist.

Skólapúlsinn er sjálfsmatskerfi fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Nemendur, foreldrar og starfsfólk svara spurningalista á netinu og við lok hverrar könnunar fá skólastjórnendur niðurstöður birtar á heimasvæði sínu.

Grunnskólinn í Borgarnesi er við landsmeðaltal í nýlegri mælingu Skólapúlsins varðandi einelti. Í skólanum er unnið að því að uppræta einelti og bæta líðan nemenda með reglulegum bekkjarfundum, Búbblunni, einstaklingsviðtölum og inngripum þar sem námsráðgjafi og sálfræðingur sem hafa haldið sérhönnuð  námskeið. Í Búbblunni fer fram velferðarkennsla og þar er meðal annars unnið með sjálfstraust og þrautseigju. Verulega ánægjuleg breyting kom í ljós hvað varðar þrautseigju nemenda. Skólinn hefur undanfarin ár verið nokkuð undir landsmeðaltali en í fyrra varð hreyfing í jákvæða átt. Markvisst var rætt við nemendur um þrautseigju og þeir hvattir til að gefast ekki upp þó viðfangsefnin virtust erfið í fyrstu.  Í þessari fyrstu könnun á skólaárinu má greina verulega breytingu hvað þennan þátt varðar og  erum við komin upp fyrir landsmeðaltal.

8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti í skólum. Á þessum degi er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti. Í tilefni dagsins fóru nemendur og starfsfólk skólans niður á íþróttavöll og mynduðu þetta risastóra hjarta sem sjá má á myndinni.