Grunnskólinn í Borgarnesi hefur fengið styrk úr menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. Um er að ræða samstarfsverkefni skóla í fjórum löndum, en auk Íslands taka Tékkland, Ítalía og Spánn þátt í verkefninu. Verkefnið gengur undir heitinu Enjoyable Maths og meðal markmiða þess er að kynnast mismunandi aðferðum sem notaðar eru við stærðfræðikennslu og gefa nemendum tækifæri til að umgangast jafnaldra frá öðrum löndum og kynnast menningu þeirra og siðum. Verkefnið mun standa yfir í 2 ár.
Eitt markmiða Erasmus+ er að auka gæði í menntun og þjálfun innan þeirra 33 Evrópulanda sem eiga aðild að áætluninni og stuðla að samstarfi milli evrópskra skólastofnana. Samstarfsverkefni sem þetta veitir skólum tækifæri til að vinna með öðrum skólum eða samstarfsaðilum í Evrópu og skiptast á reynslu og góðum vinnubrögðum í kennslu. Sömuleiðis gefst tækifæri til að vinna að innleiðingu eða þróun nýjunga í skólastarfi. Samstarfsverkefni þurfa að taka mið af stefnumörkum Evrópusambandsins í menntun og nýta til þess m.a frumkvöðlafærni, tungumálakunnáttu og upplýsingatækni.
Gert er ráð fyrir að 18 nemendur úr Borgarnesi heimsæki samstarfslöndin og vinni með jafnöldrum sínum að margvíslegum stærðfræðiverkefnum. Í september 2019 er svo von á 18 nemendum frá samstarfsskólunum hingað og munu þeir gista á heimilum Borgnesinganna.
Margrét Skúladóttir og Helga Stefanía Magnúsdóttir kennarar stýra verkefninu af hálfu Grunnskólans í Borgarnesi.