Tveir nemendur í 10. bekk, Erla Ágústsdóttir og Íris Líf Stefánsdóttir, sitja nú í ráðgjafarhópi umboðsmanns barna. Hópurinn er ráðgefandi aðili fyrir umboðsmann barna um þau málefni sem snúa að börnum og ungmennum í íslensku samfélagi. Hann vinnur að ýmsum verkefnum og/eða málefnum sem hann telur að umboðsmaður barna þyrfti að huga að, sjálfstætt eða í samstarfi við önnur ungmennaráð.
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna er vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og fær tækifæri til þess að hafa áhrif á málefni sem skipta þau máli í samfélaginu. Í hópnum eru unglingar á aldrinum 13 til 18 ára sem eru umboðsmanni barna innan handar með ráðgjöf um málefni barna og ungmenna og réttinda- og hagsmunamál þeirra.
Fulltrúar úr ráðgjafarhópnum hafa setið í nefndum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, haldið erindi á ráðstefnum, skrifað greinar í blöð, fundað með ráðherrum og forseta Íslands. Hópurinn hefur staðið fyrir kynningum á Barnasáttmálanum í fjölmiðlum, í verslunarmiðstöðvum og er núna að vinna að kvikmynd sem fjallar um Barnasáttmálann.
Í byrjun árs átti hópurinn fund á Bessastöðum með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.