Ferðalag í flughálku – bókargjöf

Ritstjórn Fréttir

Borgnesingurinn Þorsteinn Eyþórsson færði nýverið bókasafni grunnskólans bókina Ferðalag í flughálku – unglingar og ADHD. Bókin er gefin út af ADHD samtökunum og höfundur hennar er Sólveig Ásgrímsdóttir. Í upphafi bókarinnar þakkar Sólveig Þorsteini, eða Steina eins og hann er kallaður, fyrir framlag hans. Steini hjólaði í kringum landið sumarið 2016 og safnaði áheitum sem tryggðu fjárhagslegan grundvöll bókarinnar. Bókin er skrifuð fyrir foreldra, kennara og ekki síst fyrir unglinga sem greinst hafa með ADHD. Höfundur leitast við að svara algengum spurningum um ADHD og fjallar um áhrif þessarar röskunar á líf unglingsins, fjölskyldu hans og nám. Bókasafnið þakkar Steina kærlega fyrir bókina sem á eftir að koma að góðum notum. Myndin sýnir Þorstein og dótturson hans Guðjón Árnason afhenda Ragnhildi Kristínu Einarsdóttur aðstoðarskólastjóra bókina.