Fuglavernd eru frjáls félagasamtök um verndun fugla og búsvæði þeirra. Samtökin gáfu nýlega út fræðslurit um fuglaskoðun sem ber heitið: Væri ég fuglinn frjáls – Fyrstu skrefin í fuglaskoðun. Fuglavernd færir öllum grunnskólum landsins bekkjarsett fyrir fimmta bekk að gjöf. Ritið er skrifað með 4. – 5. bekkinga í huga en það höfðar þó til allra sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu skemmtilega og fræðandi áhugamáli. Myndir af algengustu fuglum Íslands eru á kápusíðum og þar er fuglunum skipt í sex flokka eftir búsvæðum, skyldleika og lífsháttum: sjófuglar, vaðfuglar, máffuglar, landfuglar, vatnafuglar og spörfuglar. Flokkunin gerir fuglaskoðurum kleift að greina flesta þá fugla sem þeir sjá á förnum vegi. Höfundur ritsins er Jóhann Óli Hilmarsson.
Það er ekki amalegt fyrir fimmtubekkinga að fá slíkt rit í hendurnar nú þegar fuglalífið er allt að taka við sér eftir veturinn.
Eftirtaldir aðilar styrktu útgáfuna; Umhverfis-og auðlindaráðuneytið, Barnavinafélagið Sumargjöf, Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar, Valitor – Samfélagssjóður og Landsbanki Íslands – Samfélagssjóður.