Fróðleg og skemmtileg Tékklandsför

Ritstjórn Fréttir

Um þessar mundir tekur skólinn okkar þátt í Erasmus verkefninu Enjoyable Maths ásamt skólum frá Tékklandi, Spáni og Ítalíu. Um miðjan febrúar hittust hóparnir í  Tékklandi og voru fulltrúar GB þau Alexander Breiðfjörð Erlendsson, Ari Frímannsson, Ásdís Lind Vigfúsdóttir, Katrín Jóhanna Jónsdóttir og Stefán Einar Þorsteinsson úr 7. bekk og Atli Freyr Ólafsson, Nína Björk Hlynsdóttir og Valborg Elva Bragadóttir úr 8. bekk, Fararstjórar voru Júlía Guðjónsdóttir, skólastjóri og  Helga Stefanía Magnúsdóttir og Margrét Skúladóttir kennarar. Ferðalagið byrjaði með hvelli því aftakaveðri var spáð brottfarardaginn 14. febrúar. Því var brugðið á það ráð að fara suður með hópinn á fimmtudagskvöldi til öryggis og gista á Hótel Ásbrú í Keflavík. Fluginu, sem fara átti um áttaleytið á föstudagskvöldi, var seinkað til miðnættis.  Ferðalangarnir lentu svo í pólsku borginni Wrocklaw seinni part nætur og keyrðu þaðan til tékkneska bæjarins Ceska Vés sem er í Jesenik héraði í norðausturhluta landsins.  Nemendur gistu hjá tékkneskum fjölskyldum. Nemendur sátu í kennslustundum, einkum í stærðfræði og ensku og tókust á við margvísleg stærðfræðiverkefni jafnt innandyra sem utan.  Einnig voru settar upp listasmiðjur og umhverfið var skoðað. Mikið var um útivist og hreyfingu, sund, kajak, minigolf, skauta o.fl. Einn daginn var farið í ferðalag upp í fjöllin í nágrenninu  þar sem farið var á sleða og snjólistaverk búin til.  Að sögn fararstjóranna stóðu nemendur okkar sig mjög vel; voru dugleg í samskiptum við krakkana frá hinum löndunum og hvarvetna til fyrirmyndar.