Fullveldi til fullveldis

Ritstjórn Fréttir

Tónlistarmennirnir Jónína Erna Einarsdóttir píanóleikari og Bergþór Pálsson söngvari hafa í tilefni fullveldisafmælisins sett saman dagskrá í tali og tónum um tónlistarsögu Íslands. Dagskrána kalla þau Fullveldi til fullveldis.  Nýverið buðu þau nemendum og starfsfólki grunnskólans að hlýða á dagskrána í Borgarneskirkju og var hún flutt þrisvar sinnum þar sem nemendum var skipt upp eftir stigum.  Í dagskránni er stiklað er á stóru um tónlistarsögu Íslendinga allt frá tónlistarflutningi á fyrstu öldum Íslandsbyggðar til dagsins í dag. Margt bar á góma og nefna má t.d. tíðasöng í klaustrum, fimmundarsöng, söngkennarann Ríkíní, ættjarðarljóð og – lög sem til urðu við lýðveldisstofnunina, nútímatónlist, dægurlög o.fl. o.fl.

Listafólkið flutti dagskrána með glæsibrag og leikrænum tilburðum auk þess sem sett voru upp spjöld með mikilvægum ártölum til þess að undirstrika hvað fram fór hverju sinni. Gestum var boðið að taka undir í þremur lögum; Þingvallasöng (Öxar við ána) eftir Steingrím Thorsteinsson og Helga Helgason, Kvæðinu um fuglana (Snert hörpu mína) eftir Sölva Helgason og Atla Heimi Sveinsson og Í síðasta skipti (Ég man það svo vel) eftir Friðrik Dór og fleiri. Vel var tekið undir í söngnum og kirkjugestir fóru aftur í skólann margs vísari um tónlistarsögu Íslands.