Þessa viku hafa verið í heimsókn nemendur frá Tékklandi, Spáni og Ítalíu tengslum við Erasmus+ verkefnið Enjoyable Maths. 28 nemendur dvöldu á heimilum nemenda og tóku þátt í daglegu lífi þeirra. Í fylgd með hópnum voru 11 kennarar. Í skólanum fengu nemendur auk hefðbundins skólastarfs að fást við ýmis viðfangsefni á borð við pönnukökubakstur og að tálga í tré. Auk þess var farið í ferð um uppsveitir Borgarfjarða, þar sem Deildartunguhver og Grábrók voru skoðuð. Á Laugalandi fengu nemendur að kynnast ylhúsaræktun og á sauðfjárbúinu á Hesti gafst tækifæri til að fylgjast með sauðburði. Hópurinn kvaddi í morgun, föstudaginn 17. maí, og mun verja síðasta degi Íslandsdvalarinnar í Reykjavík og á Suðurlandi.
Það er gaman að geta þess að íslensku nemendurnir og gestgjafarnir stóðu sig með mikilli prýði þrátt fyrir tungumálaörðugleika og menningarmun.
Vinna við verkefnið tekur um það bil tvö ár. Eftir að vinnu við styrkumsókn lauk og hún hafði verið samþykkt hittust kennarar á vinnu- og undirbúningsfundi í Prag haustið 2018.
Næst munu nemendur koma saman á Spáni í október; þá í Tékklandi í febrúar 2020 og síðasta samveran verður á Sikiley í maí 2020.


