GB tekur þátt í verkefni með tékkneskum grunnskóla

Ritstjórn Fréttir

Í maí á þessu ári hófst samstarf Grunnskólans í Borgarnesi og grunnskólans ZSK Jerábka sem er í bænum Roudnice nad Labem í Tékklandi. Bæjarbúar eru um 13.000  talsins og er bærinn í  30 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborginni Prag. EEA styrkur fékkst til verkefnisins. Styrkurinn kemur úr sjóði sem hefur það markmið að stuðla að samstarfi menntastofnana á Íslandi, í Lichtenstein og Noregi við menntastofnanir í öðrum löndum í Evrópu. Undirbúningsferli umsóknar tók nokkra mánuði, en lagt var upp með að sækja um kennaraskipti skólaárið 2021 – 2022, þar sem kennarar tækju virkan þátt í kennslu – og nemendaskipti skólaárið 2022 – 2023.  Seinni umsóknin er enn í vinnslu. Í ZSK Jerábka eru u.þ.b. 580 nemendur á aldrinum 6 – 15 ára. Samstarfsverkefni skólanna tengist útikennslu, sögu og menningu og fara öll samskipti fram á ensku.

Þær Birna Hlín Guðjónsdóttir, Helena Guðmundsdóttir, Helga Harðardóttir og Helga Stefanía Magnúsdóttir frá Grunnskólanum í Borgarnesi sóttu ZSK Jerábka heim dagana 31. október til 8. nóvember sl. Þær tóku þátt í kennslu í skólanum, fengu fræðslu um skólastarfið, m.a. varðandi kennsluaðferð í stærðfræði, náttúrufræðikennslu og skóla margbreytileikans. Þær sáu um kynningu á Íslandi fyrir nemendur og starfsfólk, þar sem meðal annars var sýnt myndband til að kynna skólann okkar. Myndbandið var unnið af stjórn nemendafélags GB og skólahljómsveitin sá um tónlistarflutning.

Í þrjá kennsludaga tóku kennarar þátt í útikennsluverkefni með nemendum í 8. bekk. Verkefnið var á útikennslusvæði skólans. Þangað er ferðast með lest og gengnir 4 – 5 kílómetrar í áfangastað.  Á útikennslusvæðinu er gömul mylla og í verkefninu fékk hópurinn fræðslu um sögu tveggja fjölskyldna sem bjuggu á þessu svæði og áttu sína mylluna hvor. Allar námsgreinar voru fléttaðar saman í verkefni þar sem nemendur voru settir í hlutverk fjölskyldumeðlima, þurftu m.a. að gera sáttmála, sjá um heimilishald, setja upp leikþætti og búa til skreytingar.

Fjórir kennarar frá ZSK eru væntanlegir í Borgarnes 12. – 20. mars 2022. Þeir munu taka þátt í verkefni sem byggir á söguhefð okkar og menningu.

Umsjón með verkefninu af hálfu Grunnskólans í Borgarnesi hefur Hulda Hrönn Sigurðardóttir deildarstjóri sérkennslu.