Glæsilegur árangur í Stóru upplestrarkeppninni

Ritstjórn Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi árið 2020 var haldin þann 19. maí í Þinghamri á Varmalandi.  Nemendur í 7. bekkjum Grunnskólans í Borgarnesi, Grunnskóla Borgarfjarðar, Heiðarskóla og Auðarskóla tóku þátt í lokahátíðinni. Allir nemendur 7. bekkja hafa notið góðrar þjálfunar í sínum skólum frá 16. nóvember, sem er dagur íslenskrar tungu og upphafsdagur keppninnar á landsvísu. Þegar líða tekur á skólaárið halda skólarnir forkeppnir þar sem valdir eru tveir til  þrír fulltrúar hvers skóla auk varamanns. Fulltrúar Grunnskólans í Borgarnesi voru þau Ásdís Lind Vigfúsdóttir, Birta Kristín Jökulsdóttir,  Ernir Daði Arnberg Sigurðsson og Guðjón Andri Gunnarsson. Skemmst er frá því að segja að Ernir Daði og Guðjón Andri hrepptu fyrsta og annað sætið í keppninni. Allir nemendur voru skólum sínum til sóma og voru dómarar ekki öfundsverðir af því hlutskipti að velja í verðlaunasæti.

Keppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara og hefur verið haldin víða um land frá árinu 1996. Þátttaka í upplestrarkeppninni stendur öllum 7. bekkjum landsins til boða. Keppnin skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta og keppnishluta. Ræktunarhlutinn er sá hluti upplestrarkeppninnar sem mestu máli skiptir. Hann miðast við tímabilið frá degi íslenskrar tungu fram í lok febrúar. Á þessu tímabili er lögð sérstök rækt við vandaðan upplestur og framburð í hverjum bekk.  Þær vikur í skólunum, sem helgaðar eru vönduðum upplestri, eru alfarið í höndum kennara.

Hátíðarhlutinn er það sem kalla mætti hina eiginlegu „keppni“. Hann er í tvennu lagi. Annars vegar er upplestrarhátíð í hverjum skóla í lok febrúar þar sem valdir eru nemendur til áframhaldandi þátttöku í keppninni fyrir hönd skólans. Hins vegar er lokahátíð í héraði, sem haldin er í góðum samkomusal í byggðarlaginu í mars. Þar koma saman fulltrúar skólanna í héraðinu og lesa ljóð og laust mál sem þeir hafa undirbúið vandlega. Að þessu sinni þurfti þó að fresta lokahátíðinni, eins og svo mörgu öðru,  vegna kórónuveirufaraldurs.

„Keppnin“ er í raun aðeins formsatriði, staðfesting á þeim árangri sem náðst hefur í skólastarfinu og því miklu meir í ætt við uppskeruhátíð. Ekki skiptir máli hver sigrar, heldur það að tekist hafi að virkja nemendur til að vanda upplestur sinn um veturinn. Upplestrarkeppnin er því ekki keppni í  venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á  bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af.

Skáld keppninnar í ár voru Birkir Blær Ingólfsson og Jón úr Vör. Lesið var í þremur umferðum; í fyrstu umferð lásu nemendur úr skáldsögu Birkis Blæs, Stormsker, í annarri umferð voru lesin ljóð eftir Jón úr Vör og í síðustu umferð valdi hver flytjandi sér ljóð til flutnings. Ásdís Lind valdi og flutti ljóðið Hve elska ég þig gleði eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum, Ernir Daði flutti ljóðið Mitt faðir vor eftir Kristján frá Djúpalæk og Guðjón Andri flutti Frægðarförina eftir Heiðrek Guðmundsson.

Dómnefnd skipuðu þau Ingibjörg Einarsdóttir og Þorleifur Hauksson frá Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn, og Birgir Hauksson fulltrúi heimamanna.

Guðjón Andri Gunnarsson og Ernir Daði Arnberg Sigurðsson

 

Guðjón Andri, Ernir Daði, Ásdís Lind og Birta Kristín

 

Það má til gamans rifja upp að fulltrúar Grunnskólans í Borgarnesi, Hinrik Úlfarsson og Jóhannes Þór Hjörleifsson, hrepptu 1. og 2. sætið á lokahátíðinni árið 2019. Með þeim á myndinni er Valborg Elva Bragadóttir.